Blóðug átök glæpagengja hafa staðið lengi yfir í Mexíkó og eru landsmenn orðnir ýmsu vanir í þeim efnum. En morðin á sunnudaginn eru þó meðal þeirra verstu undanfarin ár hvað varðar fjölda látinna.
Sautján karlar og þrjár konur voru skotin til bana að sögn Sky News. Fjórir voru fluttir á sjúkrahús. Fram kemur að árásarmennirnir virðist hafa verið búnir að skipuleggja ódæðisverkið og hafi komið í flutningabíl, sem hafði verið stolið frá matvælaflutningafyrirtæki. Nokkrir vopnaðir menn hafi stokkið út úr honum og skotið á fólkið.
Saksóknarar segja að strætisvagni hafi verið komið fyrir utan við bygginguna til að koma í veg fyrir að fólk gæti flúið eða kallað á hjálp. Þeir segja að margt bendi til að morðin tengist átökum glæpagengja á svæðinu.