Stjórnlausir mávar hafa haldið ítölsku ferðamannaparadísinni Feneyjum í heljargreipum.
Mávarnir láta reglur samfélagsins sem vind um vængi þjóta og hafa gerst svo ágengir að varla er hægt að neyta matar utandyra án þess að eiga á hættu að óprúttinn mávur hrifsi matinn úr höndunum á fólki, eða af disk þeirra.
Hótelin á svæðinu hafa hingað til verið ráðalaus gagnvart þessum fiðruðu glæpamönnum.
Enrico Mazzocoo, sem rekur Monaco og Grand Canal hótelið sagði í samtali við fjölmiðla að hann viti til þess að mávur hafi flogið brott með heila steik rétt eftir að þjónn lyfti lokinu af diskinum sem steikin var borin fram á.
Mávarnir hafa einnig gerst sekir um að grípa ís, bakkelsi og samlokur beint úr höndum ferðamanna sem og að brjóta og bramla glös og diska.
Eftir áralanga baráttu veitingastaða- og hótelgeirans ákváðu samtök hótelrekenda að nú væri kominn tími á nýja nálgun.
Svo nú ef þú situr fyrir utan hótel í Feneyjum og ert að njóta lífsins er ekki ólíklegt að þér verði afhend appelsínugul vatnsbyssa.
Vatnsbyssan er appelsínugul því að samkvæmt fuglasérfræðingum þykja mávum sá litur vera einstaklega viðurstyggilegur og því líklegir að halda sig frá. Því er mögulegt að halda mávunum frá þér bara með því að hafa vatnsbyssuna á borðinu fyrir framan þig.
Ef það virkar ekki, nú þá er hægt að grípa vatnsbyssuna og sprauta vatni á fuglanna.