Washington Post segir að þetta sé gert til að auka verndina gegn veirunni í ljósi þess hversu mikið smitum hefur fjölgað víða í Evrópu að undanförnu. Haft er eftir embættismönnum að það sé undirafbrigði Ómíkron sem leiki lausum hala og muni það væntanlega berast til Bandaríkjanna.
Heimilað verður að gefa örvunarskammt númer tvö með bóluefnunum frá Pfizer/BioNTech og Moderna. Heimildarmenn Washington Post sögðu að reikna megi með yfirlýsingu frá Rochelle Walensky, forstjóra smitsjúkdómastofnunarinnar, um þetta á þriðjudaginn.
Mun fólk geta fengið örvunarskammt númer tvö þegar að minnsta kosti fjórir mánuðir eru liðnir frá fyrri örvunarskammtinum. Núna getur fólk með skert ónæmiskerfi fengið fjórða skammtinn.