Það má kannski segja að örplast sé orðið hluti af umhverfinu þótt ekki sé það gott fyrir náttúruna. Nú er hægt að segja að það sé orðið enn stærri hluti af umhverfinu eftir að örplast fannst í mannsblóði.
The Guardian segir að vísindamenn hafi rannsakað blóð úr 22 blóðgjöfum og hafi örplast fundist í 80% sýnanna.
Þetta vekur að vonum miklar áhyggjur því óttast er að örplast sé allt annað en gott fyrir mannslíkamann en það er þó enn ekki vitað með vissu. Vitað er að plastið getur farið um líkamann með blóði og óttast er að það geti valdið tjóni á frumum en það hefur gerst í tilraunum á tilraunastofum.
Í um helmingi sýnanna var PET-plast en það er yfirleitt notað í drykkjarflöskur. Þriðjungur innihélt pólýstýrin sem er meðal annars notað í plastpakkningar. Fjórða hvert sýni innihélt pólýetýlen sem er meðal annars notað í innkaupapoka.