Sky News skýrir frá þessu. Áhyggjur vöknuðu af þessu afbrigði fyrr á árinu þegar rannsóknarstofa á Kýpur fann þetta afbrigði veirunnar.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO skýrði frá því í síðustu viku að afbrigðið hefði einnig greinst í Hollandi og Danmörku. Tvö tilfelli þess hafa einnig verið staðfest í Bandaríkjunum.
Vísindamenn segja að afbrigðið sé blanda af Delta- og Ómíkronafbrigðunum. Veirur blandast saman þegar einhver er smitaður af tveimur afbrigðum á sama tíma, þá afrita frumurnar sig saman í nýja veiru.
Maria van Kerkhove, hjá WHO, sagði að búast hafi mátt við að þetta afbrigði kæmi fram á sjónarsviðið, sérstaklega í ljósi mikillar útbreiðslu Ómíkron og Delta. Hún sagði að WHO fylgist með afbrigðinu.
Vísindamenn segja að nú sé nægt ónæmi til staðar hjá fólki gegn bæði Delta og Ómíkron og því sé engin ástæða til að óttast að nýja afbrigðið sé ónæmt fyrir bóluefnum. Sumir höfðu óttast að afbrigðið verði skeinuhætt þar sem Delta veldur alvarlegri veikindum hjá fólki en Ómíkron en á móti er Ómíkron meira smitandi.