Fjallað var um málið á vef Videnskab.dk og þar kemur fram að fyrri rannsóknir hafi sýnt að COVID-19 geti valdið breytingum á heilanum, þar á meðal á þeim svæðum sem stýra lyktarskyninu. Þetta á að minnsta kosti við hjá þeim sem veikjast alvarlega.
En samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar virðist sem væg einkenni og veikindi hafi áhrif á heilann og breyti honum og hann minnki örlítið, sérstaklega svæðið sem tengist lyktarskyninu.
Rannsóknin sem um ræðir er sú fyrsta þar sem sneiðmyndir voru teknar af heilum fólks bæði áður en það smitaðist af COVID-19 og eftir smit. Það þykir einn aðalstyrkleiki rannsóknarinnar því með þessu er hægt að bera heila þátttakendanna saman fyrir og eftir smit.
Breytingarnar sem um ræðir eru litlar en að meðaltali minnkaði lyktarskynssvæðið um 0,7%. Á því svæði þar sem mest breyting varð var breytingin 2%. Þetta svarar til þess að umrætt svæði hafi elst um 3,5 ár.
Rétt er að hafa í huga að þessar niðurstöður eiga aðeins við um ástand heilans frekar stuttu eftir COVID-19 veikindi og ekki liggur fyrir hvort þetta gangi til baka að einhverju leyti.