Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að samkvæmt rannsókninni hafi 18,2 milljónir manns hugsanlega látist af völdum COVID-19 frá upphafi faraldursins til ársloka 2021. Opinberar tölur, sem ná frá janúar 2020 til ársloka 2021, sýna að 5,9 milljónir hafi látist.
Umrædd rannsókn er fyrsta ritrýnda rannsóknin um hversu miklu fleiri létust af völdum veirunnar en opinberar tölur segja til um.
Gögn frá 191 landi voru skoðuð og reiknilíkön voru notuð til að leggja mat á fjölda óskráðra dauðsfalla. Á heimsvísu voru þau talin 120 á hverja 100.000 íbúa. Í sumum löndum voru dauðsföllin mun fleiri, allt upp í 512 á hverja 100.000 íbúa á Andesfjallasvæði Suður-Ameríku. Í Austur-Evrópu voru þau 345 á hverja 100.000 íbúa og í Mið-Evrópu 316 á hverja 100.000 íbúa.
Í nokkrum löndum voru dauðsföllin færri en reikna mátti með út frá sögulegum gögnum. Þar á meðal er Ísland en hér á landi voru dauðsföllin 48 færri á hverja 100.000 íbúa, í Ástralíu voru þau 38 færri á hverja 100.000 íbúa og í Singapúr voru þau 16 færri á hverja 100.000 íbúa.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu The Lancet.