Sky News skýrir frá þessu. Haft er eftir Timothy Darvill, prófessor við Bournemouth háskóla, að minnismerkið hafi verið reist til að hægt væri að fylgjast með gangi ársins. Á þessum tíma var ein vika tíu daga og mánuðirnir voru fleiri en í dag.
Hann sagði að sólardagatal af þessu tagi hafi verið þróað við austanvert Miðjarðarhaf á öldunum eftir 3000 fyrir Krist og hafi verið tekið upp í Egyptalandi um 2700 fyrir Krist.
Ekki er talið útilokað að fyrirmyndin að Stonehenge hafi verið sótt til þessara menningarheima við Miðjarðarhafið.
Darvill sagði að Stonehenge sé þannig gert úr garði að það sé í beinni línu við sólarupprás við sumarsólstöður og við sólsetur á vetrarsólstöðum. Það hefur lengi þótt benda til að um einhverskonar dagatal væri að ræða að hans sögn.
Stonehenge var reist um 2500 fyrir Krist.