Mike Pompeo, sem var utanríkisráðherra í forsetatíð Donald Trump, var einnig staddur á Taívan þegar sendinefndin kom þangað. Hann var í einkaerindum en fundaði samt sem áður með Tsai Ing–Wen, forseta, og varnarmálaráðherra landsins eins og hin opinbera sendinefnd gerði einnig.
Bandaríkjamenn hafa ekki dregið dul á að heimsóknin tengist stríðinu í Úkraínu. Vangaveltur hafa verið uppi um að Kínverjar myndu ráðast á Taívan í skjóli stríðsins í Úkraínu. Með heimsókninni sendu Bandaríkin Kínverjum þau skýru skilaboð að þeir hafi ekki gleymt Taívan og muni koma landinu til hjálpar ef Kínverjar ráðast á það.