„Ég lofa að greiða eina milljón dollara til foringja sem uppfylla stjórnarskrárbundna skyldu sína og handtaka Pútín sem stríðsglæpamann undir rússneskum og alþjóðlegum lögum,“ segir Alex Konanykhin, 55 ára gamall rússneskur athafnamaður í útlegð. Alex birtir tilkynninguna á Facebook-síðu sinni en Bild Zeitung í Þýskalandi fjallar um málið.
Alex segir að Pútín sé ekki réttkjörinn forseti Rússlands þar sem hann hafi komist til valda í kjölfar þess að byggingar voru sprengdar upp í loft í Moskvu árið 1999. Um er að ræða óupplýstan atburð en tjetneskum hryðjuverkamönnum var kennt um voðaverkið.
Alex segir ennfremur í tilkynningu sinni að Pútin hafi komið í veg fyrir frjálsar kosningar í valdatíð sinni og hann hafi látið myrða pólitíska andstæðinga sína. Segist Alex líta á það sem siðferðislega skyldu sína að stuðla að því að afnasistavæða Rússland. Segist hann munu styðja Úkraínumenn í hetjulegri vörn sinni gegn herjum Pútíns.
Í upphaflegri færslu Alex um málið stóð slagorðið „Wanted dead or alive“ en Facebook eyddi þeim pósti. Birti Alex þá hógværari færslu þar sem hvatt er til handtöku Pútíns en ekki að hann sé tekinn af lífi.