Um leið og byggingaverkamennirnir áttuðu sig á að þeir höfðu fundið fornleifar hættu þeir vinnu og gerðu yfirvöldum viðvart.
Hópur franskra fornleifafræðinga er nú kominn á staðinn til að rannsaka hann. Þeir gátu nær samstundis slegið því föstu að um kirkjugarð frá dögum Rómarveldis sé að ræða.
Þeir hafa fundið um 20 rómverskar grafir en reikna með að hafa fundið um 80 þegar þeir hafa lokið rannsókn sinni. Tvær grafir hafa verið opnaðar. Í annarri þeirra voru leifar af beinagrind og nokkrar leirkrukkur.
Grafirnar eru skreyttar og segja fornleifafræðingarnir að það bendi til að háttsett og valdamikið fólk hafi verið grafið í garðinum.
Á Gaza er mikið af fornleifum en svæðið var mikilvægur vettvangur viðskipta hjá mörgum samfélögum.