Ákveðin tímamót urðu á síðasta ári þegar bandarísk stjórnvöld birtu skýrslu um mörg hundruð tilvik þar sem hermenn hafa séð fljúgandi furðuhluti. Sumt af þessu var hægt að skýra en sumt var ekki hægt að skýra og upptökur frá hernum sýna hluti fljúga á þannig hátt að ekki er vitað til að núverandi tækni okkar mannanna geri slíkt flug kleift.
Í nýlegri umfjöllun The Guardian um málið er þeirri spurningu varpað fram hvort Bandaríkjamenn fari nú loks að taka fljúgandi furðuhluti alvarlega.
Haft er eftir Nick Pope, sem starfaði við rannsóknir á tilkynningum um fljúgandi furðuhluti fyrir breska varnarmálaráðuneytið á tíunda áratug síðustu aldar, að hann sé sannfærður um að árið í ár muni breyta miklu varðandi þennan málaflokk. Hann sagðist telja að nú sé svo komið í Bandaríkjunum að alvöru áhugi sé fyrir að taka á málum af þessu tagi. Hann sagðist telja að yfirheyrslu fari fram fyrir þingnefndum á árinu um mál tengd fljúgandi furðuhlutum og að fleiri ljósmyndir og upptökur frá Bandaríkjaher verði gerðar opinberar auk tilheyrandi skjala. Hann sagðist einnig reikna með að fleiri vitni stígi fram og segi frá upplifun sinni, þetta verði flugmenn farþegaflugvéla, herflugmenn, fólk sem starfar við ratsjáreftirlit og leyniþjónustumenn.
Á vegum Galileo Project er verið að koma upp neti fullkominna sjónauka sem munu skanna himininn í leit að fljúgandi furðuhlutum. Rúmlega 100 vísindamenn taka þátt í verkefninu sem fer af stað í sumar. Einn þeirra er Avi Loeb, prófessor við Harvard háskóla. Hann sagði að ætlunin sé að gera niðurstöður verkefnisins opinberar.
Innrauðar myndavélar munu mynda himininn allan sólarhringinn. Þær eru með ýmsum skynjurum til að sjá ósýnilega hluti. Tölva mun síðan nota gervigreind til að greina gögnin sem aflað verður og mun hún leiða hluti á borð við flugvélar, dróna, loftsteina og fugla hjá sér. Sagði Loeb að athyglin muni beinast að hlutum sem „eru ekki manngerðir.“
Leonard David, höfundur bókarinnar „Moon Rush: the New Space Race, og fréttamaður hefur fylgst með geimiðnaðinum áratugum saman. Hann sagði að nú sé frábært að vera uppi því eitthvað sé að gerast. „Þú getur ekki verið með svo margt fólk við rannsóknir án þess að það skili einhverju,“ sagði hann.
„Á einhverjum tímapunkti munum við hafa aflað nægilegra vísindalegra gagna sem styðja að líkurnar á að við hér á jörðinni séu bara nokkuð algeng og að það sé fullt af menningarsamfélögum í geimnum. Við verðum að fara að gera ráð fyrir að við séum ekki ein. Spurningin er hversu margir eru þarna uppi?“