Samkvæmt henni þá glíma flest ungmenni við eftirköst af COVID-19 í átta vikur eða meira eftir að þau smitast. Stúlkurnar fara verr út úr þessu en strákarnir. B.T. skýrir frá þessu.
„Unga fólkið skýrir frá höfuðverk, örmögnun, lystarleysi, öndunarörðugleikum, minnistapi og erfiðleikum með að einbeita sér. Eitthvað af þessu getur tengst sjúkdómnum, til dæmis að lungnavefurinn sé ekki alveg í lagi en annað á rætur að rekja til viðbragða ónæmiskerfisins en það getur valdið magaverk í langan tíma. Þegar ónæmiskerfið veikist þá er líka auðveldara að fá bakteríusýkingar,“ sagði Selina Kikkenborg Berg, prófessor á hjartadeild danska ríkissjúkrahússins, í samtali við Sundhedspolitisk Tidsskrift.
Hún gerði rannsóknina LongCovidKidsDK en í henni var gagna aflað frá ungmennum á aldrinum 15 til 18 ára sem greindust með COVID-19 frá 1. janúar 2020 til 12. júlí 2021. Til samanburðar voru ungmenni á sama aldri sem ekki greindust með COVID-19. Alls tóku 6.630 smituð ungmenni þátt í rannsókninni og 21.640 ósmituð.
Rannsóknin leiddi í ljós að 62% hinna smituðu glímdu við eftirköst í átta vikur eða meira. Stúlkurnar fóru sérstaklega illa út úr þessu því 70% þeirra glímdu við eftirköst á móti 49% piltanna.
Berg sagði að þetta megi rekja til þess að stúlkurnar séu næmari fyrir því sem gerist í líkamanum vegna hormónastarfseminnar.