Samkvæmt skýrslu sem gerð var af NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration) mun sjávarborð við strandlengju Bandaríkjanna hækka meira á næstu 30 árum en það gerði alla 20. öldina. AP fjallaði um skýrsluna.
Í skýrslunni kemur fram að sjávarborðið verði búið að hækka um 25-30 sentimetra árið 2050. Þá kemur fram að sjávarmálið á nokkrum stöðum hækki meira, til dæmis á það að hækka um 60 sentimetra fyrir árið 2060 í kringum eyjuna Galveston í Texas. Þá á það eftir að hækka svipað mikið í kringum St. Petersburg í Flórída.
„Ekki gera nein mistök: Hækkun sjávarmáls er yfirvofandi,“ sagði NicoleLeBoeuf, yfirmaður NOAA, á blaðamannafundi um skýrsluna í gær.
LeBoeuf varaði þá fólk við því að hækkun sjávarmáls hafi skelfilegar afleiðingar. Hún benti til að mynda á að 40% Bandaríkjamanna búi við strandlengju landsins og að stór hluti bandaríska efnahagskerfisins sé einnig staðsettur þar.
William Sweet, haffræðingur og aðalhöfundur skýrslunnar, sagði þá í viðtali eftir að skýrslan var gefin út að búast megi við auknum flóðum. „Það eru að fara að verða flóð á svæðum þar sem flóð hafa ekki verið til þessa,“ sagði hann. „Margar af stórborgum austurstrandarinnar eru að fara að vera í mun meiri hættu.“
Skýrslan er svo enn svartsýnni þegar horft er til lengri tíma. Í henni er gert ráð fyrir að sjávarmálið hækki um um það bil 60 sentimetra fyrir lok þessarar aldar, þá segir að hækkunin verði meiri í kringum austurströndina en á vesturströndinni.