San Francisco Chronicle skýrir frá þessu. Fram kemur að tæknirannsóknardeild lögreglunnar hafi skráð upplýsingar um DNA mörg þúsund þolenda kynferðisofbeldis í gagnagrunn sem er notaður til að bera kennsl á grunaða afbrotamenn.
Chesa Boudein, saksóknari, sagði í samtali við miðilinn að embætti hans hafi frétt af þessu í síðustu viku. Hann sagði að þetta gæti brotið gegn lögum Kaliforníuríkis um réttindi þolenda afbrota og gegn stjórnarskrárvörðum rétti fólks.
Lífsýni voru tekin úr konunni fyrir mörgum árum í tengslum við rannsókn á heimilisofbeldi og nauðgun. Þau voru síðan notuð til að tengja hana við alls óskylt mál í San Francisco.
Boudein sagðist hafa áhyggjur af að þetta muni gera að verkum að fórnarlömb kynferðisafbrota muni síður snúa sér til lögreglunnar.
Bill Scott, lögreglustjóri í San Francisco, sagði að hugsanlega hafi konan verið tengd við glæpinn út frá DNA í öðrum gagnagrunni, ekki á grunni lífsýnis úr nauðgunarmálinu. Hann sagði að lögreglan muni fara rækilega ofan í kjölinn á málinu.