Sveitarfélagið greiðir foreldrum 50.000 norskar krónur, sem svarar til um 700.000 íslenskra króna, fyrir að eignast barn. VG skýrir frá þessu.
Það var bæjarstjórinn, Sture Pedersen, sem kom fram með þessa tillögu en hann vonast til að með þessu verði hægt að fjölga íbúum sveitarfélagsins en þeir eru nú um 2.500.
Auk greiðslunnar lofta Pedersen íbúum einnig bestu og ódýrustu leikskólum landsins. Meðalverð fyrir leikskólapláss í Noregi er 3.000 norskar krónur á mánuði en í Bø verður það nú 1.500 krónur og stefnt er að því að lækka verðið enn frekar að sögn Pedersen.
Bø hefur um hríð verið kallað hið norska Mónakó eftir að sveitarfélagið náði að lokka nokkra milljónamæringa til að flytja lögheimili sitt til sveitarfélagsins með því að lækka útsvarið.
Pedersen segir einnig að 50.000 krónurnar séu greiddar fyrir hvert barn svo tvíbura- og þríburaforeldrar fá greitt fyrir hvert barn.
Til að tryggja að fólk búi áfram í sveitarfélaginu eftir fæðingu verða 25.000 krónur greiddar strax eftir fæðingu og hinar 25.000 krónurnar þegar börnin ná tveggja ára aldri.