Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að „yfirlýsingar um fjárhagslega stöðu“ sem Trump notaði til að fá lán séu nú til rannsóknar hjá yfirvöldum sem eru að rannsaka fjármál Trump Organization sem er fyrirtækjasamsteypa Trump. Í henni eru um 500 fyrirtæki sem eru annaðhvort í einkaeign Trump eða meirihlutaeigu hans.
Í bréfi sem Mazar sendi samsteypunni 9. febrúar er Trump hvattur til að skýra lánveitendum frá því að fyrrgreindar yfirlýsingar um fjárhagsstöðu, sem gefnar voru út á árunum 2011 til 2020, teljist ekki lengur áreiðanlegar.
Bréfið var gert opinbert í tengslum við rannsókn Letitia James, saksóknara í New York, á hvort Trump hafi ekki skýrt rétt frá fjárhagsstöðu fyrirtækja sinna þegar hann leitaði eftir lánum og við skattskil.
Í bréfinu frá Mazar segir að ákvörðunin um að vinna ekki lengur fyrir Trump Organization og lýsa fyrri yfirlýsingar um fjárhagsstöðu samsteypunnar ógildar byggist á upplýsingum frá James og upplýsingum frá aðilum innan og utan fyrirtækisins.