Í skýrslunni segir að það sé mjög líklegt að utanaðkomandi orku hafi verið beint að sendiráðum og sendiráðsstarfsmönnum með útvarpsbylgjum. Þetta hefur valdið hinu svokallað Havanaheilkenni en þess hefur orðið vart hjá bandarískum stjórnarerindrekum í Kína, Evrópu, Mið-Ameríku og Karíbahafi.
Havanaheilkennið kom fyrst fram á sjónarsviðið meðal bandarískra stjórnarerindreka á Kúbu árið 2016. Margir urðu þá fyrir skyndilegu minnistapi, ógleði og miklum höfuðverk. Allt hafði fólkið heyrt undarleg hljóð áður.
Síðar áttu svipaðir atburðir sér stað á ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í Guangzhou í Kína og á síðustu mánuðum hafa borist fregnir af atburðum af þessu tagi í Evrópu.
Sérfræðingahópurinn hefur haft aðgang að mörg hundruð blaðsíðna leyniskjölum um málið og hann hefur einnig rætt við fjölda fólks sem hefur veikst. Niðurstaðan er að einhver utanaðkomandi orka hafi verið notuð til árásar á fólkið.
Segir hópurinn að hægt sé að nota sérstök loftnet til að senda „rafsegulbylgjur“, sem geta skaðað mannsheila, úr 10 til mörg hundruð metra fjarlægð. Segja sérfræðingarnir að þessar bylgjur geti komist í gegnum flest byggingarefni.
Bandaríska vísindaakademían komst að svipaðri niðurstöðu á síðasta ári.
Sérfræðingahópurinn segir að enn sé langt í lang með að hægt verði að segja með fullri vissu hvernig árásirnar eru gerðar og hver eða hverjir standa á bak við þær.