Það hefur lengi verið almenn skoðun vísindamanna að faraldurinn hafi orðið allt að helmingi Evrópubúa að bana á árunum 1347 til 1352. Hann hafði mikil áhrif á samfélagsgerð og trúarbrögð og því urðu miklar samfélagslegar breytingar í kjölfar hans.
The Independent segir að í niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem hefur verið birt í Nature Ecology, komi fram að faraldurinn hafi hugsanlega ekki orðið eins mörgum að bana og talið hefur verið fram að þessu.
Vísindamenn við þýsku Max Planck stofnunina rannsökuðu frjókorn frá 261 stað í 19 Evrópuríkjum til að sjá hvernig landslag og landbúnaður breyttust frá 1250 til 1450. Þeir rannsökuðu rúmlega 1.600 sýni frá þessum stöðum til að kanna í hversu miklu magni mismunandi plöntur hafa vaxið þar en út frá þessum upplýsingum gátu þeir séð hvort landbúnaður á þessum svæðum hefði haldið áfram í óbreyttu formi eða stöðvast eða hvort villtar plöntur hefðu sótt í sig veðrið þegar minni ágangur varð af mannavöldum.
Þeir komust að þeirri niðurstöðu að á mörgum svæðum í Mið- og Austur-Evrópu og hlutum Vestur-Evrópu, þar á meðal Írlandi og Íberíuskaga, hafi landbúnaður haldið áfram í nokkuð óbreyttri mynd eftir faraldurinn. Í hlutum Póllands, Eystrasaltsríkjanna og miðhluta Spánar var vöxtur í landbúnaði á þessum tíma. Telja þeir að út frá þessum gögnum megi ráða að mannfall hafi ekki verið eins mikið á þessum svæðum og víða annars staðar.