Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, staðfesti í gær að hún og flokkssystkini hennar væru nú að skoða að banna kjörnum fulltrúum á löggjafarþingum í Bandaríkjunum að eiga, kaupa, selja og braska með hverskyns verðbréf. Þá sagði hún að verið væri að skoða hvernig hægt væri að keyra löggjöf þess efnis í gegn þannig að hún tæki gildi á þessu ári.
Þetta kom fram á vikulegum blaðamannafundi hennar í þinghúsinu á Capitol hæð í Washingtonborg í gær. CNN greindi frá.
Demókratar eru raunar ekki einir í þessu, því samkvæmt Pelosi njóta hugmyndir hennar stuðnings meðal Repúblikana líka. Þá eru hugmyndir af þessum toga ekki nýjar af nálinni. Í janúar óskaði Pelosi eftir því að þingnefnd skoðaði að hækka sektir vegna brota á gildandi reglum um verðbréfaviðskipti og reglum um hagsmunaskráningar og tengsl þingmanna, og þá sérstaklega með það að leiðarljósi að refsa þingmönnum sem gerast sekir um innherjaviðskipti.
Pelosi sagði að reglurnar þyrftu að gilda um alla þingmenn, ekki bara á alríkisstiginu, heldur í löggjafarþingum ríkjanna fimmtíu einnig.
Þá benti Pelosi jafnframt á að engar sérstakar reglur giltu um verðbréfaviðskipti hæstaréttardómara og að þeir væru ekki skyldaðir til þess að gefa upp hagsmunaskráningu og eign þeirra í verðbréfum. Því þyrfti að breyta.