Lögreglan hefur leitað að þeim báðum síðan tilkynnt var um hvarf þeirra og tugir sjálfboðaliða hafa tekið þátt í leitinni. Leitað hefur verið víða um Álaborg og einnig hafa kafarar lögreglunnar leitað í höfninni. En án árangurs.
Framan af sagði lögreglan að líklega væri það algjör tilviljun að þau hafi horfið með svona stuttu millibili og að ekkert benti til að eitthvað glæpsamlegt hefði átt sér stað. En í gærkvöldi sendi lögreglan frá sér tilkynningu þar sem kveður við annan tón. Lýsti hún þar eftir svörtum bíl sem talið er að Mia hafi farið upp í snemma á sunnudagsmorguninn en síðast sást til hennar um klukkan sex. Segir lögreglan nú að ekki sé hægt að útiloka að Mia hafi orðið fórnarlamb glæps. Hún hefur hins vegar ekki sagt neitt í þá veru um mál Oliver.
Mia er sögð vera mjög umhyggjusöm og skyldurækin ung kona sem lætur fjölskyldu sína alltaf vita um ferðir sínar. Oliver er lýst á svipaðan hátt og sagt að hann sé ekki manngerðin sem sækist eftir deilum eða átökum.
Lögreglan veit að Oliver stóð utan við veitingastað McDonald‘s í miðborginni um nóttina og beið eftir vini sínum sem hafði farið þar inn að kaupa sér mat. Þegar hann kom út var Oliver horfinn.
Mia skildi við vinkonu sína í miðborg Álaborgar um klukkan sex að morgni sunnudags og sást síðast við Vesterbro 99.
Lögreglan hefur aflað sér myndefnis úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni og hefur verið að fara yfir þær.
Í fréttatilkynningu, sem lögreglan sendi frá sér í gærkvöldi, segir að nú liggi fyrir að Mia hafi farið frá Jomfru Ane Gade, sem er aðalskemmtistaðagatan í miðborginni, í átt að Borgergade og síðan að Vesterbro. Klukkan 06.09 settist hún inn í dökkan bíl við verslun Netto við Vesterbro 99. Bílnum var síðan ekið í suðurátt eftir Vesterbro en ekki er vitað hvert honum var síðan ekið. Frank Olsen, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að út frá þessu telji lögreglan að Mia hafi hugsanlega orðið fórnarlamb glæps. Lögreglan segist vinna út frá þeirri kenningu að um „sjóræningjaleigubíl“ hafi verið að ræða og óskar eftir að heyra frá fólki sem hafi ekið með „sjóræningjaleigubíl“ í Álaborg aðfaranótt sunnudags. Einnig er lýst eftir fólki sem var á Vesterbro nærri verslun Netto um klukkan sex þennan morgun.