Sérfræðingar á smitsjúkdómasviði segja þessi lög og lagafrumvörp vera dæmi um hvernig hægrisinnaðir stjórnmálamenn séu að gera lyf að pólitísku máli en slíkt hefur færst í aukana í Bandaríkjunum frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á.
The Guardian segir að nú sé þetta farið að snúast um hvort frekar eigi að treysta heilbrigðisyfirvöldum eða læknum sem víkja frá starfsreglum og hlaðvörpum og fréttaþulum ákveðinna sjónvarpsstöðva.
„Við verðum að láta stjórnmálamenn stíga til hliðar og láta vísindamenn og sérfræðinga í lýðheilsumálum taka ákvarðanir um hvað kemur að gagni við COVID,“ er haft eftir Sunil Parikh, prófessor í farsóttafræði og smitsjúkdómum við Yale School of Public Health.
Buzzfeed segir að Kansas sé meðal þeirra 11 ríkja þar sem Repúblikanar hafa lagt fram lagafrumvörp, sem hafa sum verið samþykkt, þar sem völd eftirlitsstofnana eru takmörkuð til að grípa til aðgerða gegn læknum sem ávísa Ivermectin og Hydroxychlotoquine. Ekkert hefur komið fram sem sannar að lyfin gagnist en margir hægrisinnaðir stjórnmálamenn hafa tekið þau upp á arma sína og lofsamað.