The Guardian segir að sérfræðingar telji hjálmana, sem eru í góðu standi, og málmleifarnar vera frá orustunni um Alalia sem var háð á sjöttu öld fyrir krist. Þá báru Grikkir sigurorð af óvinum sínum í sjóorustu undan strönd Korsíku.
Velia er stórt svæði þar sem mikið er af fornleifum. Þar fundust einnig leifar af hofi og vasar með grísku áletruninni „heilagt“. Þessir munir fundust á svæði þar sem háborgin hefur verið í þessum gríska bæ.
Massimo Osanna, forstjóri ítalskra safna, segir að á svæðinu séu líklega munir sem voru gefnir gyðjunni Aþenu, sem var gyðja visku og herkænsku, eftir orustuna um Alalia. Eftir orustuna tóku Grikkirnir stefnuna á Ítalíu og keyptu sér land og stofnuðu Velia.
Osanna segir að þessi fundur varpi nýju ljósi á sögu hinnar öflugu grísku nýlendu.