fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Pressan

19 mínútur tók það – Selt fyrir 400 milljónir dollara og hefur ekki sést síðan

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 1. febrúar 2022 06:05

Salvator Mundi. Mynd:Christie's

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það tók 19 mínútur, 19 æsispennandi mínútur. Á þessum mínútum börðust fimm bjóðendur, þar af fjórir í gegnum síma, um að yfirbjóða hver annan. Með hverju boðinu lyftust augabrýr viðstaddra hærra upp og fólk tók andköf af æsingi og undrun. Að lokum sló uppboðshaldarinn hamrinum í borðið. „Verkið er selt fyrir 400 milljónir dollara,“ sagði hann.

Viðstaddir klöppuðu ákaft þann 15. nóvember 2017 en dagurinn skrifaði sig inn í sögubækurnar því aldrei áður hafði jafn hátt verð verið greitt fyrir málverk og metið stendur enn.

Uppboðshúsið Christie‘s hafði þarna selt málverkið „Salvador Mundi“ eftir Leonardo da Vinci. Eða hvað?

Allt frá því að málverkið, sem enginn hafði vitað af, kom fram á sjónarsviðið árið 2005 hefur listaverkaheimurinn skipst í tvo hluta. Annar hlutinn stendur fast á því að málverkið sé eitt merkasta málverk sögunnar og svo sannarlega eftir da Vinci. Hinn hlutinn er efins og setur mörg spurningarmerki við málverkið og sögu þess.

Verkið Salvator Mundi

Í nýrri danskri heimildarmynd er kafað ofan í málið og ráðgátuna um þetta dýrasta málverk heims. „Þetta er algjörlega Nýju fötin keisarans,“ sagði Andreas Koefoed, leikstjóri myndarinnar, í samtali við The Guardian þegar hann lýsti þeim heimi sem er afhjúpaður í myndinni. Gagnrýnandi Berlingske segir að í þessum heimi séu meðal annars „lymskulegur safnstjóri, skuggalegur svissneskur listaverkasali, rússneskur olígarki, forseti Frakklands, CIAFBI og auðvitað krónprinsinn í Sádí-Arabíu.“

Það er talið að krónprinsinn hafi keypt málverkið og greitt litlar 400 milljónir dollara fyrir og að auki þurfti að greiða 50 milljónir dollara í ýmis gjöld. Sem sagt tæplega 58 milljarðar íslenskra króna fyrir eitt málverk.

Skrautleg saga

Saga „Salvator Mundi“ hófst eiginlega í uppboðshúsi í New Orleans. Þar greiddi listaverkakaupmaður frá New York 1.175 dollara fyrir málverkið. Á þeim tíma var talið að það væri eftir einn nemenda da Vinci. Það var í skelfilegu ásigkomulagi og því var viðurkenndur forvörður fenginn til að hressa upp á það. Þá fór málið að flækjast og úr varð ráðgáta mikil. Eftir því sem hún vann meira við verkið, þeim mun sannfærðari varð hún um að da Vinci hefði sjálfur málað það. Það voru auðvitað stórtíðindi því þá var aðeins vitað um 15 málverk eftir hann.

En þessi sannfæring hennar varð til þess að listaverkaheimurinn fór að beina sjónum sínum að málverkinu og fljótlega var verkið sýnt á stórri da Vinci sýningu í National Gallery í Lundúnum. Áður höfðu margir sérfræðingar skoðað það og sögðust ekki getað útilokað að það væri eftir da Vinci sjálfan. En þeir fengu ekki að gera nákvæma rannsókn á því að sögn BT.

Mohammed Bin Salman er talinn hafa keypt málverkið. Mynd:GettyImages

Verkið var því opinberlega talið eftir da Vinci og þá jókst áhuginn á því til mikilla muna og verðið hækkaði auðvitað. 2013 greiddi rússneskur olígarkur 127 milljónir dollara fyrir það. En olígarkinn varð fljótlega ósáttur þegar hann komst að því að listaverkaráðgjafi hans hafði svindlað hressilega á honum. Hann keypti verkið á 83 milljónir dollara daginn áður og seldi síðan vinnuveitanda sínum og hafði 44 milljónir dollara upp úr krafsinu. Í ljóst kom að ráðgjafinn hafði gert þetta áður, raunar við öll þau listaverk sem hann hafði keypt fyrir vinnuveitanda sinn. Hann hafði haft einn milljarð dollara upp úr krafsinu með þessari aðferð.

Olígarkinn reiddist mjög þegar hann komst að þessu og ákvað að selja öll listaverk sín, þar á meðal „Salvator Mundi“ á uppboði hjá Christie‘s.

Uppboðshúsið auglýsti uppboðið vel og má eiginlega segja að um herferð hafi verið að ræða. Mikill áhugi var á málverkinu og eins og fyrr sagði var það selt fyrir 400 milljónir dollara, plús 50 milljónir í gjöld.

Síðan hefur enginn séð málverkið. New York Times hefur margoft fjallað um málverkið og er blaðið ekki í neinum vafa um að það hafi verið Mohammed bin Salman, krónprins í Sádí-Arabíu, sem keypti það. Blaðið hefur sagst hafa heimildir fyrir að málverkið sé geymt í snekkju hans.

Á meðan það er þar og hulið sjónum heimsins verður aldrei skorið úr um hvort um verk eftir da Vinci sé að ræða eða verk eftir nemanda hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Með nýrri tækni hefur tekist að upplýsa fjölda gamalla morðmála

Með nýrri tækni hefur tekist að upplýsa fjölda gamalla morðmála
Pressan
Fyrir 2 dögum

Nettröllið sem hefur átt í rúmlega áratugalöngu stríði við Trump – „Ég mun ásækja þennan mann þar til ég dey“

Nettröllið sem hefur átt í rúmlega áratugalöngu stríði við Trump – „Ég mun ásækja þennan mann þar til ég dey“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hver er maðurinn? – Lík í blautbúningi gæti hafa legið í uppistöðulóni í þrjá mánuði

Hver er maðurinn? – Lík í blautbúningi gæti hafa legið í uppistöðulóni í þrjá mánuði
Pressan
Fyrir 3 dögum

Nakinn maður fannst undir gólffjölunum hjá 93 ára konu – Talinn hafa haldið sig þar í sex mánuði

Nakinn maður fannst undir gólffjölunum hjá 93 ára konu – Talinn hafa haldið sig þar í sex mánuði