The Guardian segir að René Robert hafi verið einna þekktastur fyrir að mynda marga af þekktustu flamingódönsurum Spánar.
Það var vinur hans, Michel Mompontet, sem hratt umræðunni af stað nýlega á Twitter. Hann skýrði þá frá því að Robert hafi dottið á Rue de Turbigo. Hann hafi líklega svimað og dottið. „Hann gat ekki staðið upp, lá á götunni í níu klukkustundir þar til heimilislaus maður hringdi eftir aðstoð. Ekki ein einasta manneskja hjálpaði honum á þessum níu klukkustundum. Ekki ein,“ skrifaði hann.
Í samtali við franska sjónvarpsstöð sagði Mompontet að Robert hafi „verið drepinn af skeytingarleysi.“
Samtök heimilislausra segja að árlega látist um 600 heimilislausir á götum Frakklands.
Fyrir nokkrum árum vakti myndband á YouTube-rásinni NorniTube mikla athygli en í því var rannsakað hvort vegfarendur væru líklegri til að hjálpa manni, sem datt niður á götu úti, ef hann var í jakkafötum í stað þess að líta út fyrir að vera heimilislaus. Niðurstaðan var skýr. Þegar hann var klæddur eins og heimilislaus lá hann miklu lengur á götunni og hrópaði á hjálp. Ef hann var í jakkafötum fékk hann nær samstundis hjálp.