Í tilkynningu frá stofnuninni segir að hún muni nú hefja mánaðarlanga herferð til að búa til „heilbrigt, hamingjusamt og friðsælt umhverfi á netinu.“
Herferðin er einnig tengd við kínverska nýárið sem hefst 31. janúar og stendur til 6. febrúar en milljónir Kínverja eru í fríi í tengslum við það og leggja jafnvel land undir fót.
Stofnunin var sett á laggirnar 2014 af Xi Jinping forseta og er hún mjög valdamikil. Hún á að vernda Internetið og gagnaöryggi en ritskoðun er stunduð af krafti í Kína og landsmenn hafa ekki aðgang að hverju sem er á Internetinu.
Samkvæmt áætlun stofnunarinnar verður að hafa góða stjórn á vinsælum vefsíðum og sjá til þess að þar komi „jákvæðar upplýsingar“ fram og að eyða eigi ósæmilegu, blóðugu og ofbeldisfullu efni sem og öðru efni sem er ólöglegt eða veitir slæmar upplýsingar.
Meðal þess sem ekki verður liðið er að fólk stæri sig af auð sínum eða lofsami peninga.