Í kjallaranum fann lögreglan átta manns sem voru læstir þar inni. Lögreglan segir að Bankston-hjónin hafi rekið starfrækt sambýli eða umönnunaraðstöðu í kjallaranum án þess að hafa tilskilin leyfi til þess en undir yfirskini þess að þetta væri starfsemi á vegum One Step of Faith Second Chance kirkjunnar.
Hjónin höfðu tekið yfir alla stjórn á fjárhag og lyfjagjöf þeirra sem voru í kjallaranum og tóku við bótagreiðslum til fólksins frá hinu opinbera. Lögreglan segir að áttmenningarnir séu allir andlega veikir og/eða andlega fatlaðir.
Lögreglan komst á snoðir um hvað var í kjallaranum þegar eftirlitsmenn á vegum slökkviliðsins fóru að heimilinu til að sinna veikum manni. Dyrnar inn í kjallarann voru með tveimur lásum og þurftu slökkviliðsmennirnir að ræða við sjúklinginn í gegnum glugga.
Hjónin höfðu verið með húsið á leigu í fjórtán mánuði og notuðu kjallarann til að vista áttmenningana sem lögreglan telur að hafi verið haldið í honum gegn vilja sínum. Einnig bendir hún á hversu hættulegar aðstæður fólksins voru, til dæmis ef eldur hefði komið upp í húsinu.
Félagsmálayfirvöld tóku áttmenningana í sína umsjá en Curtis Bankston var vistaður í fangelsi og á ákæru yfir höfði sér sem og eiginkona hans. Independent skýrir frá þessu.