Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu og hefur eftir Hugo Zeberg, hjá Karólínskustofnuninni í Svíþjóð, að með þessari uppgötvun verði vinna við þróun lyfja gegn veirunni markvissari. Hann vildi ekki kalla þetta „tímamótauppgötvun“ en sagði niðurstöðuna vera mjög mikilvæga.
Rannsóknin byggir á uppgötvun frá því í árslok 2020 en þá komust vísindamenn að því að ákveðinn hluti af erfðaefninu okkar gerir að verkum að 20% minni líkur eru á að fólk veikist alvarlega af völdum COVID-19. Þá tókst vísindamönnum ekki að finna út úr hvaða gen gerir þetta að verkum en nú hefur sænska rannsóknin varpað ljósi á það.
Þetta genaafbrigði, sem vísindamennirnir fundu, nefnist rs10774671-G. Zeberg sagði að þetta væri gen sem kóði fyrir prótín sem nefnist OAS1 og stýri kerfi sem brjóti RNA-veirur niður en SARS-CoV-2 (veiran sem veldur COVID-19) er RNA-veira. Þetta gen veitir einnig vernd gegn öðrum RNA-veirum, til dæmis lifrarbólgu C. Þetta er afbrigði sem má rekja til Neanderdalsmanna og er enn að finna í sumum.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í Nature Genetics.