Á síðasta ári fæddust 10,62 milljónir barna í landinu og 10,14 milljónir landsmanna létust. Fæðingarnar voru því aðeins fleiri en andlátin. Þessar 10,62 milljónir nýrra Kínverja svara til þess að 7,52 börn hafi fæðst á hverja 1.000 landsmenn að sögn hagstofu landsins. Dánartíðnin var 7,18 á hverja 1.000 landsmenn. Fólksfjölgunin var því aðeins 0,34 á hverja 1.000. The Guardian skýrir frá þessu.
Manntal, sem var gert í maí á síðasta ári, leiddi í ljós að Kínverjum hafði fjölgað um 0,53% á milli ára en frá 2000 til 2010 var fjölgunin 0,57%.
Kínverjar glíma líkt og fleiri Asíuþjóðir við lækkandi fæðingartíðni og framtíðarsýn þar sem fólki mun fækka og meðalaldurinn hækka. Tölur hagstofunnar sýna að hlutfall 60 ára og eldri af heildarmannfjöldanum hækkaði úr 18,7% 2020 í 18,9% á síðasta ári.
Stjórnvöld hafa gripið til þess ráðs að hækka eftirlaunaaldurinn, heimila hjónum og pörum að eignast þrjú börn en áður hafði þeim verið heimilað að eignast tvö börn frá 2016 eftir áratuga eins barns stefnu. Hár framfærslukostnaður er sagður halda aftur af barneignum sem og sú staðreynd að fólk gengur síðar í hjónaband nú en áður. Einnig kemur lítil félagsleg virkni fólks við sögu. Stjórnvöld hafa reynt að bregðast við þessu með því að banna dýra einkakennslu og heitið betra aðgengi að barnagæslu og bættu fæðingarorlofi.