fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Pressan

Morðið á Tinderstefnumótinu – Hélt að hann hefði framið hið fullkomna morð

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 18. janúar 2022 06:08

Grace Millane

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvöldið áður en hún átti 22 ára afmæli fór Grace Millane á stefnumót með ungum manni. Grace, sem var bresk, var stödd í Auckland á Nýja-Sjálandi þegar þetta gerðist. Stefnumótið kostaði hana lífið.

Mánudaginn 3. desember 2018 ók ungur maður farangursvagni með tösku á út af hóteli í Auckland. Í töskunni voru ekki föt heldur lík Grace. Ungi maðurinn hélt að hann hefði framið hið fullkomna morð og væri laus allra mála. En hann hafði rangt fyrir sér.

Nokkrum dögum síðar var Jesse Kempson, 26 ára, handtekinn grunaður um að hafa myrt Grace með því að kyrkja hana.

Þau höfðu mælt sér mót í gegnum stefnumótaforritið Tinder en Grace var í hnattferð og var ein á ferð. Þau höfðu komist í samband við hvort annað á Tinder þennan sama dag og ákveðið að hittast. Þau fengu sér nokkra drykki saman og fóru síðan saman á hótelið þar sem Jesse gisti. Þar kyrkti hann hana. Því næst setti hann líkið í tösku og gróf hana síðan í runnaþykkni nærri Auckland.

Hamingjuóskir

Þegar afmælisdagur Grace rann upp sendu fjölskylda hennar og vinir á Englandi henni afmæliskveðjur en þegar hún svaraði ekki fór fólk að hafa áhyggjur. Ættingjar hennar settu sig í samband við lögregluna á Nýja-Sjálandi og tilkynntu um hvarf hennar.

Lögreglan fór strax að leita að henni og vissi að samfélagsmiðlar eru góður staður til að hefja slíka leit á og til að kortleggja hvað Grace hafði tekið sér fyrir hendur á Nýja-Sjálandi. Sá sem hafði síðast skrifað athugasemd á Facebooksíðu hennar var Jesse Kempson sem hafði hrósað einni ljósmynda hennar. Lögreglan skrifaði til hans til að fá fullt nafn hans. Daginn eftir hafði hann sjálfur samband við lögregluna og mætti til yfirheyrslu.

Grace og Jesse.

Í fyrstu yfirheyrslunni virtist hann leggja spilin á borðið og játaði að hafa hitt Grace kvöldið fyrir afmælisdaginn hennar. Hann sagði hana hafa sett sig í samband við hann á Tinder en það hefði verið hann sem lagði til að þau myndu hittast og fá sér drykk saman. Hann stakk upp á ákveðnum stað. Hann sagði að þau hefðu hist á fjölförnum stað í Auckland, Hann hefði verið hræddur um að hún væri að blekkja hann og væri ekki sú sem hún sagðist vera. Hann hafi því talið sig öruggari með að hitta hana á fjölmennum stað. Hann sagði að stefnumótinu hefði lokið um klukkan 20 og þau haldið í sitt hvora áttina. Hann hefði sjálfur farið á annan bar. Þar hafi hann drukkið tíu bjóra eða svo og myndi ekkert eftir sér fyrr en hann vaknaði á hótelherberginu sínu á milli klukkan 9 og 10 næsta morgun.

Á meðan hann ræddi við lögreglumenn voru aðrir að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Þær sýndu að parið hafði ekki farið í sitt hvora áttina klukkan 20 eins og Jesse sagði. Síðasta upptakan af Grace var af henni í lyftu með Jesse á hótelinu hans. Þau voru á leið upp í herbergið hans. Upptökurnar sýndu einnig að Jesse yfirgaf hótelið klukkan 8 næsta morgun. Þegar þetta var borið undir Jesse svaraði hann: „Er eitthvað sem þú vilt spyrja mig um?“

Grace Millane.

Þegar þarna var komið við sögu hafði Grace verið týnd í fimm daga og lögreglan hafði enga hugmynd um hvað hafði orðið um hana. Hún hafði heldur engar sannanir fyrir að Jesse ætti hlut að máli. Af þeim sökum neyddist hún til að sleppa honum og það þrátt fyrir að upptökur eftirlitsmyndavéla sýndu að hann hafði logið í yfirheyrslunni.

Rannsóknin hélt áfram

En lögreglan var ekki hætt og fékk úrskurð dómara til að mega gera leit á hótelherbergi Jesse. Þar fundu sérfræðingar hennar ummerki eftir mikið magn af blóði. Tveimur dögum síðar fékk lögreglan heimild til að rannsaka farsíma Jesse og það skilaði árangri. Í ljós kom að nóttina sem hann og Grace höfðu farið saman upp á hótelherbergið hans hafði hann leitað að upplýsingum á Internetinu um „hvað brennir allt?“ og hvaða aðferð væri best til að „búa til heitan eld.“

Einnig kom í ljós að hann hafði farið í fjalllendið Waitakere Ranges tveimur dögum eftir stefnumótið. Lögreglan fékk því leitarmenn til að fara á svæðið og hefja leit að Grace. Þennan sama dag var leitinni að Grace breytt úr leit að horfinni manneskju í morðrannsókn.

Jesse og Grace í lyftunni.

Jesse var kallaður til yfirheyrslu á nýjan leik og nú hafði hann aðra sögu að segja. Hann sagðist hafa farið á þrjá bari með Grace og síðan hafi þau farið upp á hótelherbergið hans. Þar hafi Grace byrjað að tala um kvikmyndina „Fifty Shades of Grey.“ Því næst hafi þau stundað „villt kynlíf“ og hafi Grace beðið hann um að taka um háls hennar. Að kynlífinu loknu hafi hann farið í bað og síðan sofnað inni á baðherberginu.

Þegar hann vaknaði næsta dag sagðist hann hafa fundið Grace liggjandi á gólfinu og hafi blóð lekið úr nösum hennar. Hann sagðist hafa reynt að vekja hana en án árangurs. Hann hafi þá misst stjórn á sér og ákveðið að setja lík hennar í ferðatöskuna. Grátandi sagðist hann hafa farið með töskuna út í bílaleigubíl, keypt skóflu og síðan ekið til Waitakere Ranges þar sem hann gróf töskuna.

Foreldrar Grace ræddu við fréttamenn. Mynd:Getty

Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýndu einnig að hann hafði keypt ýmsar þrifavörur þennan dag. Hann sagðist hafa keypt klór til að reyna að fjarlægja blóðið úr hótelherberginu. Hann sagðist ekki muna hvað hann gerði við eigur Grace. En upptökur úr eftirlitsmyndavélum veittu svar við því. Hann sást setja eigur hennar í svartan ruslapoka sem hann henti síðan í ruslatunnu á almannafæri.

Scott Beard stýrði rannsókninni. Mynd:Getty

Í lok yfirheyrslunnar var Jesse spurður þriggja spurninga: Fyrst var hann spurður hvort Grace hefði látist þegar hann var nærri. Því játaði hann. Því næst var hann spurður hvort hann hefði ætlað sér að drepa Grace. Hann sagði nei við þeirri spurningu. Síðasta spurning var hvort hann hefði drepið Grace. Svarið var nei.

Lík Grace fannst í Waitakere Ranges þann 9. desember eftir að Jesse fór með lögreglumönnum þangað og vísað á staðinn þar sem hann hafði grafið það.

Margir minntust Grace. Mynd:Getty

Jesse var dæmdur í ævilangt fangelsi og getur í fyrsta lagi sótt um reynslulausn eftir 17 ár.

Jesse fyrir dómi. Mynd:Getty
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr

Umhugsunarefni fyrir þá sem ætla að fá sér gæludýr
Pressan
Í gær

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags

Það er hollast að drekka kaffi á þessum tíma dags