Það er hópur breskra rannsakenda sem hefur komið með nýjar upplýsingar í málinu. Þeir segja að Christian B. sé með fjarvistarsönnun kvöldið sem Madeleine var numin á brott. Hann hafi verið í „30 mínútna fjarlægð“ frá Praia da Luz, þaðan sem Madeleine var numin á brott, kvöldið örlagaríka.
Þýska lögreglan hefur haldið spilunum ansi þétt að sér hvað varðar rannsókn málsins en hefur þó sagt að upplýsingar úr símakerfum sýni að Christian B. hafi verið í Praia da Luz þetta kvöld og er fullviss um að hann hafi myrt Madeleine.
En nú hefur hópur fyrrum lögreglumanna komist að annarri niðurstöðu. The Sun segir að þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að Christian B. hafi ekki getað numið Madeleine á brott því hann hafi verið í 30 mínútna fjarlægð frá Praia da Luza kvöldið sem hún hvarf.
Það var Mark Williams-Thomas, fyrrum rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Surrey, sem stýrði vinnu hópsins. Hópurinn er sagður hafa haft uppi á nýjum vitnum í Portúgal og Þýskalandi og telji að fjarvistarsönnun Christian B. sé góð og gild.
The Independent segir að í nýrri þriggja þátta heimildarmyndaröð, „Madeleine McCann: Investigating the Prime Suspect“, verði málið gegn Christian B. tekið fyrir og sýnt fram á að þýska lögreglan sé á villigötum. Þættirnir verða sýndir fljótlega á Channel 5 sjónvarpsstöðinni.