Þetta sagði Anna Rise, hjá Stokkhólmslögreglunni, nýlega í samtali við Sænska ríkisútvarpið. Hún sagði að almennt séð sjái lögreglan fleiri merki þess að glæpagengin starfi saman og eigi það við svæðisbundið samstarf, á landsvísu og á alþjóðavettvangi.
„Þetta er meðal annars samstarf um fíkniefni. Það snýst um að panta saman efni sem eru flutt til Svíþjóðar og síðan skipt á milli gengjanna,“ sagði hún.
Hún sagði að lögreglan sjái einnig aukningu á samstarfi gengjanna utan hefðbundinna starfssvæða þeirra.
Svíar hafa lengi glímt við glæpagengi sem eru umsvifamikil í landinu og skirrast einskis. Skotárásir og morð eru nær daglegt brauð en samkvæmt tölum yfirvalda frá því á síðasta ári var Svíþjóð það Evrópuríki þar sem flest morð voru framin með skotvopnum 2018. Það er mikil breyting frá aldamótum en árið 2000 var Svíþjóð neðst á lista yfir fjölda morða, sem voru framin með skotvopnum, í 22 Evrópuríkjum.