Aftonbladet skýrir frá þessu. Fram kemur að lögreglan leiti fleiri árásarmanna.
Tilkynnt var um skothvelli í miðbæ Tranås klukkan 00.17. Á vettvangi fundu lögreglumenn mennina tvo sem höfðu verið skotnir. Þeir voru fluttir á sjúkrahús.
Talsmaður lögreglunnar sagði að þeir hafi verið með meðvitund og hafi getað rætt við lögreglumenn en annar þeirra hafi þó virst verr á sig kominn en hinn.
Vettvangsrannsókn hefur staðið yfir í nótt. Karlmaður á sextugsaldri var handtekinn og færður til yfirheyrslu skömmu eftir að tilkynnt var um skotárásina. Hann er grunaður um að hafa aðstoðað við morðtilraun.
Hinir særðu hafa báðir komið við sögu lögreglunnar áður og telur lögreglan að árásin tengist uppgjöri glæpagengja.