Catherine Smallwood, yfirmaður viðbragðsdeildar WHO, sagði nýlega í samtali við AFP að ástandið geti enn versnað. „Þeim mun meira sem Ómíkron breiðist út, þeim mun meira sem það smitast og þeim mun meira sem það afritar sig sjálft, þeim mun líklegra er að það geti leitt af sér nýtt afbrigði,“ sagði hún.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem WHO sendir frá sér aðvörun vegna heimsfaraldursins en þær hafa ekki allar gengið eftir.
Þessi nýjasta aðvörun kemur í kjölfar „jákvæðra“ frétta af Ómíkron sem margir telja ekki eins hættulegt og fyrri afbrigði veirunnar.
En þrátt fyrir að telja megi að dánartíðni af völdum Ómíkron sé lægri en af völdum fyrri afbrigða benti Smallwood á þá óþægilegu staðreynd að afbrigðið sé samt sem áður banvænt. „Það getur orðið fólki að bana. Kannski í færri tilvikum en Deltaafbrigðið en hver veit hvað næsta afbrigði hefur í för með sér,“ sagði hún.