Samkvæmt frétt Norska ríkisútvarpsins greindust að meðaltali 4.240 smit daglega á síðustu sjö dögum. Meðaltal sjö daga þar á undan var 3.360 og því er faraldurinn greinilega í sókn.
Ómíkronafbrigðið er nú ráðandi í Noregi en á mánudaginn var skýrt frá því að í síðustu viku síðasta árs hafi 65,4% allra smita verið af völdum Ómíkron.
Heilbrigðisyfirvöld reikna með að smitum fjölgi enn frekar á næstu vikum því nú er hversdagslífið að komast í sitt hefðbundna far eftir jólafrí í skólum. Að auki fóru færri í sýnatöku síðustu tvær vikur síðasta árs en að jafnaði í öðrum vikum.
Þrátt fyrir aukningu smita þá fækkaði COVID-19-sjúklingum sem liggja á sjúkrahúsum um 21 á milli daga og eru nú 304. 95 þeirra eru á gjörgæslu og 68 af þeim eru í öndunarvél. Daginn áður voru 13 fleiri á gjörgæsludeild og 6 fleiri í öndunarvél.
Frá upphafi faraldursins hafa 412.472 greinst með kórónuveiruna í Noregi. 1.307 hafa látist af völdum COVID-19.