Þetta sagði Tyra Grove Krause, faglegur forstjóri hjá dönsku smitsjúkdómastofnuninni (SSI) í viðtali í morgunþættinum „Go Morgen Danmark,“ á TV2 sjónvarpsstöðinni í gær.
Þegar hún var spurð hversu lengi veiran muni hafa afgerandi áhrif á líf Dana svaraði hún: „Ég tel að svo verði næstu tvo mánuði en síðan vona ég að smitum muni fækka og að líf okkar færist í eðlilegt horf.“
Hún sagði að hið bráðsmitandi Ómíkronafbrigði geti orðið okkur liðsstyrkur í baráttunni við kórónuveirunar. „Ómíkron er komið til að vera og það mun valda miklum fjölda smita næsta mánuðinn. Þegar það er afstaðið erum við í betri stöðu en áður,“ sagði hún.
Hún sagði jafnframt að margt bendi til að Ómíkronafbrigðið sé mildara og að margir muni því smitast af því en sleppi við alvarleg veikindi. Það muni verða til þess að gott hjarðónæmi náist.
Hún sagði að Ómíkron muni ná toppnum í janúar og að í febrúar muni smitum fara fækkandi og álagið á heilbrigðiskerfið muni þá um leið minnka. Janúar verði þó erfiður mánuður og að fólk verði að leggja hart að sér til að komast í gegnum mánuðinn. Þar vísaði hún til sóttvarnaaðgerða og almennra leiðbeininga til fólks um að stunda félagsforðun, þvo sér vel um hendurnar og að það haldi sig heima ef heilsufarið er ekki alveg upp á það besta.