Lyfið heitir Wegovy og er frá Novo Nordisk lyfjarisanum í Danmörku. Bandaríska lyfjastofnunin hefur veitt því markaðsleyfi þar í landi fyrir fólk í yfirþyngd sem er með sykursýki 2 eða of háan blóðþrýsting. Reikna má með að fleiri lönd fylgi í kjölfarið og heimili notkun lyfsins.
Í tilraunum með lyfið voru þátttakendurnir sprautaðir einu sinni í viku. Lyfið dregur úr matarlyst og óhætt er að segja að niðurstöðurnar hafi verið góðar. Þátttakendurnir léttust um 17-18% af líkamsþyngd sinni og hélst sá árangur í gegnum allan tilraunatímann sem var 68 vikur.
Þetta er góður árangur því með því að fólk í yfirþyngd léttist um 5-10% af líkamsþyngd sinni minnka líkurnar á að það fá hjarta- og æðasjúkdóma mikið.
Wegovy virkar þannig að lyfið hermir eftir hormóninu GLP-1 sem hefur áhrif á þau svæði heilans sem stýra matarlystinni. Í samanburði við önnur lyf þá léttist fólk tvisvar til þrisvar sinnum meira ef það notar Wegovy og árangurinn virðist vera varanlegur svo lengi sem meðferðin er í gangi. Hugsunin er að meðferðinni sé haldið áfram um alla framtíð, svona eins og með blóðþrýstingslyf.
Wegovy er ekki alveg „nýtt“ af nálinni því virka efnið í því, sem heitir semaglutid, var samþykkt til notkunar gegn sykursýki 2 fyrir fjórum árum. Nú er unnið að tilraunum með það gegn Alzheimerssjúkdómnum.