Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að það er enginn heilsufarslegur ávinningur af því að ganga meira en 7.000 skref á dag. Þetta þýðir að það er heilsufarslegur ávinningur af því að ganga allt að 7.000 skref á dag en umfram það skilar ekki neinum árangri til viðbótar. Science Alert skýrir frá þessu.
Fram kemur að vísindamennirnir hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeir sem gengu að minnsta kosti 7.000 skref á dag voru að meðaltali í 50-70% minni hættu á að deyja ótímabærum dauða miðað við þá sem gengu færri en 7.000 skref á dag.
Rannsóknin stóð yfir frá 2005 til 2018. Þátttakendurnir voru 2.000 karlar og konur í Bandaríkjunum og var meðalaldur þeirra 45 ár. Fólkið gekk allt með mæli sem taldi skref. Þegar rannsókninni lauk höfðu 72 af þátttakendunum látist.
Rannsóknin leiddi í ljós að líkurnar á að deyja ótímabærum dauða urðu minni eftir því sem þátttakendurnir gengu fleiri skref á dag en þó aðeins upp að ákveðnu marki. Skref umfram 7.000 á dag skiluðu engum heilsufarslegum ávinningi til viðbótar. Var þá búið að taka tillit til aldurs, kyns, kynþáttar, menntunar, reykinga og áfengisneyslu.
Niðurstaðan er á skjön við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt að það fylgi því heilsufarslegur ávinningur að taka fleiri skref.