„Veiran er hér og mun áfram vera hér og því verðum við að undirbúa okkur undir fjórða skammtinn,“ sagði hann í samtali við sjónvarpsstöðina Kan.
Hann sagði ekki hvenær ætti að byrja að gefa fjórða skammtinn en sagði að hægt verði að nota uppfærðar útgáfur af bóluefni sem veiti meiri vernd gegn nýjum afbrigðum kórónuveirunnar, til dæmis gegn Deltaafbrigðinu. Times of Israel skýrir frá þessu.
„Svona verður lífið framvegis, í bylgjum,“ sagði hann.
Ísrael var fyrst ríkja heims til að bjóða upp á þriðja skammtinn af bóluefni en í byrjun ágúst var öllum 60 ára og eldri boðið upp á þriðja skammtinn. Í næstu viku er röðin komin að öllum eldri en tólf ára sem fengu skammt númer tvö fyrir minnst fimm mánuðum.
Fyrir helgi höfðu 2,5 milljónir landsmanna fengið þriðja skammtinn en um 9 milljónir búa í landinu.