Morton kemur með nýjar upplýsingar um vinskapsslitin í bókinni „The Fab Four“ en Vilhjálmur, Katrín, Harry og Meghan voru kölluð það áður. Sex kaflar eru í bókinni sem er uppfærð útgáfa af bókinni „Meghan: A Hollywood Princess“ sem Morton gaf út fyrir þremur árum. Uppfærða útgáfan er ekki enn komin út en Daily Mirror og Daily Mail hafa birt útdrátt úr henni.
Samkvæmt þeim þá kemur Morton með algjörlega nýja hlið á ástæðum deilna bræðranna og eiginkvenna þeirra. Fram að þessu hafa Harry og Meghan, þó aðallega Meghan, verið stimpluð sem svörtu sauðirnir í deilunum. Meghan hefur verið kölluð prímadonna og Harry „gólftuska“ hennar. Vilhjálmur og Katrín hafa hins vegar alltaf verið sögð vera góða fólkið. En Morton segir að svo einfalt sé þetta ekki.
Hann hefur eftir heimildarmönnum sínum að sökin liggi beggja megin og að það hafi meðal annars hafist vegna þess að Vilhjálmur og Katrín hafi verið ósanngjörn í garð Harry og Meghan.
Harry er sagður hafa vonast til að vinskapur hjónanna gæti haldið áfram en Vilhjálmur er ekki sagður hafa verið hrifinn af því og hafi hvesst sig og látið í sér heyra. „Hann lagði í einelti, ekki líkamlega en með orðum. Meghan og Harry töldu sig hrakin á brott frá hirðinni með einelti Vilhjálms,“ segir Morton.
En það er ekki eina afhjúpunin sem Morton kemur með því hann segir að Katrín hafi verið „köld“ við Meghan og hafi viljað að Meghan héldi sig til hlés, Katrín væri númer eitt. Kornið sem fyllti mælinn var að einhver úr konungsfjölskyldunni lét ummæli, sem fólu í sér kynþáttahyggju, falla við Harry en sem kunnugt er þá er Meghan lituð.
Miklar vangaveltur hafa verið um hver lét þessi ummæli falla en Harry hefur ekki viljað skýra frá því. Ýmsir breskir fjölmiðlar telja að aðeins Vilhjálmur eða Karl prins, faðir þeirra bræðra, komi til greina.