Það hefur lengi verið vitað að það var lögreglumaðurinn Wayne Couzens sem myrti Everard en hann hefur viðurkennt það. Fyrir dómi í gær kom fram að hann hefði misnotað stöðu sína sem lögreglumaður þegar hann nam Everard á brott. Sky News skýrir frá þessu.
Tom Little, saksóknari, sagði í gær að hægt væri að lýsa níðingsverki Couzens með fimm orðum: „Svik, mannrán, nauðgun, kyrking, eldur.“
Everard hafði verið í matarboði hjá vini sínum og var á leið heim. Strangar sóttvarnaaðgerðir voru í gildi í landinu vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Hún var ein á ferð og var með heyrnartól á höfðinu. Þegar hún átti um einn kílómetra eftir ófarinn heim gekk Couzens upp að henni en hann var óeinkennisklæddur. Þá var klukkan um 21.30. Hann sýndi henni lögregluskilríki sín og handtók hana síðan. Með því braut hann væntanlega sóttvarnareglur með því að nota þær sem falskt yfirvarp fyrir handtöku. Samkvæmt sóttvarnareglum mátti fólk ekki umgangast margt fólk utan heimilis þess og því var hugsanlega ekki erfitt fyrir Couzens að sannfæra Everard um að hún hefði brotið sóttvarnareglur. Hann setti því næst handjárn á Everard og setti hana inn í bíl sinn.
Vitni sem sá hvað fór fram sagðist hafa talið að Couzens væri óeinkennisklæddur lögreglumaður sem væri að handtaka konu sem hefði brotið af sér. Vitnið, kona, sagði að Everard hafi ekki streist á móti. Þessi ólögmæta handtaka náðist á upptökur nokkurra eftirlitsmyndavéla.
Þegar Couzens hafði sett Everard inn í bíl sinn ók hann með hana að afskekktu landsvæði norðan við Dover í suðvesturhluta landsins. Þar nauðgaði hann henni og myrti síðan.
Couzens var handtekinn 9. mars og daginn eftir fannst lík Everard. Blóð úr henni fannst í bíl Couzens. Sæði úr honum fannst einnig í aftursæti bifreiðarinnar.
Couzens sagði síðar að hann hefði kyrkt Everard með beltinu sínu og passar sú frásögn hans við niðurstöðu krufningar. Þegar hún var látin brenndi hann lík hennar í skóglendi.
Í gær kom fram fyrir dómi að þann 7. mars fór Couzens með eiginkonu sína og tvö börn í fjölskylduferð í skóginn þar sem hann hafði kveikt í líki Everard nokkrum dögum áður. Tom Little sagði að hann hefði leyft börnunum að leika sér „mjög nærri þeim stað þar sem hann hafði kastað líki Everard“.