Armin Laschet, kanslaraefni CDU/CSU, og Olaf Scholz, kanslaraefni SPD, ávörpuðu stuðningsmenn sína í gærkvöldi og sögðust báðir ætla sér að mynda ríkisstjórn og verða arftakar Angelu Merkel sem kanslari. Ólíklegt má teljast að SPD og CDU/CSU reyni að mynda stjórn saman og því eru Græningjar og Frjálslyndir í lykilstöðu hvað varðar stjórnarmyndun.
Erfitt er þó að svara því hver verður næsti kanslari því staðan er ansi flókin og stjórnarmyndun gæti tekið mjög langan tíma. Langt er á milli FDP og Græningja í mörgum málaflokkum og því verður væntanlega flókið að mynda stjórn með báða flokkana innanborðs. Stjórnmálaskýrendur telja ekki útilokað að nú muni forystufólk FDP og Græningja ræða saman og reyna að komast að samkomulagi um áherslumál flokkanna. Síðan muni þeir snúa sér til stóru flokkanna og segjast reiðubúnir til stjórnarmyndunar ef þeir séu tilbúnir til að greiða uppsett gjald. Þá sé bara spurningin hvor flokkurinn sé reiðubúinn til þess.