Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að í grein sem Glenn Gaesser, prófessor við Arizona ríkisháskólann, og Siddhartha Angadi, hjá University of Virginia, skrifuðu í iScience komi fram að takast eigi á við ofþyngd án þess að einblína á þyngdina. Það geti um leið dregið úr heilsufarsáhættu sem fylgir því að mataræði sveiflist mikið til.
Þeir fóru yfir fjölda rannsókna á þessu sviði og segja að hreyfing sé mun áhrifaríkari leið til að draga úr hættunni á ótímabæru andláti en að einblína á að léttast. „Við viljum að fólk viti að feitt fólk getur verið í góðu formi og að heilbrigðir líkamar eru til í ýmsum formum og stærðum,“ sagði Gaesser.
Hann sagði að þeir átti sig á að það geti verið erfitt að einblína ekki á þyngdina og það að léttast því svo mikið snúist um það. „Við erum ekki endilega á móti þyngdartapi, við teljum bara að það eigi ekki að vera aðalskilyrðið fyrir hvernig árangur lífsstílsbreytinga er mældur,“ sagði hann.
Þeir félagar segja að fjöldi rannsókna hafi sýnt að á síðustu 40 árum hafi fólk um allan heim reynt að léttast en samt sem áður hafi of feitu fólki farið fjölgandi. Því sé sú áhersla sem er lögð á þyngdina í baráttunni við offitu misheppnuð. Þá beri að hafa í huga að endurteknar megranir geti haft í för með sér að fólk þyngist. Þeir segja að niðurstöður ýmissa rannsókna bendi til að hreyfing sé vænlegri kostur til að lengja ævina en að léttast bara.