Zelenskij sagði í sjónvarpi að árásinni yrði svarað af hörku en tók fram að ekki væri vitað hver eða hverjir stóðu að baki henni. „Í sannleika sagt þá veit ég ekki hverjir stóðu að baki árásinni. Hvaða öfl voru að verki? Geta það verið innlend öfl? Kannski erlend, ég veit það ekki,“ sagði hann og bætti við að það væri aumingjaskapur að skjóta á bíl vinar hans frá skógi. Zelenskij er sjálfur í New York þar sem hann sækir Allsherjarþing SÞ.
Rússar brugðust fljótt við fréttum af árásinni og sagði Dmitrij Peskov, talsmaður ríkisstjórnarinnar, að Rússar ættu enga aðild að henni og að tengja þá við hana væri ekki í neinum takti við raunveruleikann.
Oleksandr Kornijenko, formaður flokks Zelenskij, telur að Rússar geti hafa staðið að baki tilræðinu. „Við getum alls ekki útilokað tengingu við Rússland. Við þekkjum getu þeirra til að skipuleggja hryðjuverk í hinum ýmsu löndum,“ sagði hann.
Mikhailo Podoljak, annar ráðgjafi forsetans, telur að banatilræðið sé afleiðing af baráttu Zelenskij gegn auðmönnum sem kallast oft olígarkar.