Lögin koma í raun og veru í veg fyrir nær öll þungunarrof en í Texas hafa 85-90% allra þungunarrofa átt sér stað eftir sex vikna meðgöngu fram að þessu að sögn New York Times.
Samkvæmt lögunum er óheimilt að binda endi á þungun ef hjartsláttur greinist hjá fóstrinu en það gerist yfirleitt á sjöttu viku meðgöngu. Lögin gera einnig refsivert að aðstoða eða hvetja til þungunarrofs eftir sex vikna meðgöngu. Þetta felur meðal annars í sé að hægt er að refsa leigubifreiðastjóra sem ekur konu til þungunarrofsmiðstöðvar. Einnig heimila lögin almennum borgurum að lögsækja sérhvern þann sem aðstoðar barnshafandi konu við að komast í þungunarrof.
Meirihluti hæstaréttar Bandaríkjanna hafnaði því að taka málið fyrir og stöðva eða fresta gildistöku laganna. Í áliti sínu segir meirihlutinn að hann hafi ekki komist að niðurstöðu um hvort lögin brjóti gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna og að ákvörðun hans komi ekki í veg fyrir að lögmæti laganna verði tekið til umfjöllunar hjá dómstólum.