Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að stofnunin verði með höfuðstöðvar í Liverpool og muni hún bjóða upp á sérfræðiþekkingu á öllum stigum heimsfaraldra.
„Það geta liðið 100 ár á milli stórra faraldra en við stöndum frammi fyrir áskorunum mun oftar en það,“ er haft eftir Matthew Bayliss, prófessor og forstjóra stofnunarinnar.
Hann sagði jafnframt að yfirstandandi heimsfaraldur hafi kennt okkur að nú verðum við að undirbúa okkur á algjörlega nýjan hátt. Faraldurinn sé áminning til heimsbyggðarinnar.
Þrjár kórónuveirur hafa komið fram á sjónarsviðið á síðustu tuttugu árum og hafa aldrei verið fleiri á svo skömmum tíma að sögn Bayliss sem sagði að við þurfum að vera undir það búinn að enn erfiðari veirur komi fram.
Í hinni nýju stofnun vinnur fólk með fjölbreyttan bakgrunn, til dæmis innan læknisfræði og háskólasamfélagsins, og á stofnunin í samstarfi við ýmsar stofnanir og samtök. Bayliss sagði að þetta gæti orðið til þess að hægt verði að veita aðstoð við að halda aftur af útbreiðslu faraldra um allan heim.