Samkvæmt nýlegri skýrslu Global Witness þá voru að minnsta kosti 227 umhverifsverndarsinnar drepnir víða um heim á síðasta ári. Samtökin telja að fjöldinn sé mun meiri en þetta. Árið á undan voru 212 umhverfisverndarsinnar drepnir svo staðfest hefur verið.
Megnið af drápunum áttu sér stað í Latnesku-Ameríku. Í Kólumbíu voru 65 drepnir og 30 í Mexíkó. Á Filippseyjum voru 29 drepnir á síðasta ári.
Það eru bændur, glæpagengi, uppreisnarmenn og herská samtök sem eru talin standa á bak við flest morðin á umhverfisverndarsinnum. En fyrirtæki og aðilar á vegum opinberra aðila koma einnig við sögu.
Í skýrslu Global Witness segir að námuvinnsla og skógarhögg sé ástæðan fyrir fjölda árása á umhverfisverndarsinna en á síðustu árum hafi árásum, sem landbúnaðarfyrirtæki standa á bak við, fjölgað því þau reyni að auka nautakjötsframleiðslu sína sem og rækt á sojabaunum og pálmaolíu.