Skoska sjúkrabílaþjónustan segist ætla að setja sig í samband við fjölskyldu mannsins og biðjast afsökunar á hversu langan tíma það tók að senda sjúkrabíl til mannsins.
En þetta mál er ekki einstakt því í bænum Kilwinning þurfti maður einn að fara þrisvar sinnum á sjúkrahús á einni viku vegna nýrnavandamála. Lengst þurfti hann að bíða í 23 klukkustundir eftir sjúkrabíl og í annað skipti kom hann ekki fyrr en eftir 11 klukkustundir. „Það vantar útlim á manninn minn og ég ætlaði að taka hann með í bílnum okkar en læknirinn réði okkur frá því, sagði að það þyrfti að flytja hann með sjúkrabíl því heilsa mannsins míns gæti skyndilega versnað. Á ákveðnum tímapunkti þraut heppni okkar,“ sagð eiginkonan, Evelyn, í samtali við BBC.
Hún sagði að þegar hún og maðurinn komu á sjúkrahús í sjúkrabíl í eitt sinn hafi níu sjúkrabílar beðið í röð eftir að komast að til að skila sjúklingum af sér.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, sagði í samtali við BBC að um allan heim glími ríkisstjórnir við blöndu margra kórónuveirutilfella og mikils álags á sjúkrahúsin. Hún sagði að skoska ríkisstjórnin muni reyna að finna lausn á málunum og horfi meðal annars til þess að fá aðstoð frá hernum við sjúkraflutninga.