The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að Marques, sem er 36 ára, hafi rekið netþjónustu á Djúpnetinu svokallaða undir heitinu Freedom Hosting frá 2008 til 2013. Notendur notuðust við dulkóðun og gátu þannig nafnlaust skoðað rúmlega 8,5 milljónir mynda og myndbanda af kynferðisofbeldi gegn börnum og pyntingum á börnum. Mikið af myndefninu var að sögn saksóknara eitthvað sem lögreglan hafði ekki vitneskju um áður.
Theodore Chuang, dómari, sagði við dómsuppkvaðninguna að brot Marques væri ekkert annað en fyrirlitlegt. Marques hefur nú þegar afplánað átta ár af dómnum en hann hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn 2013. Hann var framseldur til Maryland í Bandaríkjunum 2019 frá Írlandi.
Hann getur snúið aftur til Írlands að afplánun lokinni. Verjandi hans segir að Marques sjái eftir afbrotum sínum og hann hafi beðið fórnarlömbin afsökunar.
Hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI ríkir ánægja með niðurstöðu dómstólsins. „Dómurinn sendir skýr skilaboð til þeirra sem stunda svona gróf afbrot. Óháð því hvar þið eruð í heiminum, þá munu yfirvöld hafa hendur í hári ykkar og draga ykkur fyrir dóm,“ segir í yfirlýsingu frá FBI.
Eftir að Marques var handtekinn tókst lögreglunni að bera kennsl á fjölda fórnarlamba á myndefninu sem hann var með í vörslu sinni og hefur þeim verið veitt aðstoð.
Þegar Marques snýr aftur til Írlands verður hann undir stöðugu eftirliti yfirvalda.