Lengi hefur verið þekkt að ungmenni, og fullorðnir, noti nikótínpúða og troði þeim undir vörina en nú virðast margir troða þeim í önnur líkamsop. Þetta kemur fram í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins sem ræddi við sérfræðinga í heilbrigðismálum.
„Stundum er þetta partýkúltúr. Unga fólkið er áhættusækið og vill kannski skora hvert annað á hólm. En þetta er líka örugglega vegna þess að sumir vilja leyna því að þeir eru orðnir háðir þessu og vilja ekki að foreldrar þeirra komist að því,“ sagði Rikke Højland, heilbrigðisráðgjafi í Holsterbro. Hún sagðist heyra að unga fólkið sé mjög hugmyndaríkt þegar kemur að notkun nikótínpúðanna og það sé mikið áhyggjuefni.
Með því að setja nikótínpúðana í þessi líkamsop komast þeir í beina snertingu við slímhimnuna og það getur valdið tjóni á henni eins og þeir gera einnig þegar þeir eru settir undir varirnar. Mörg dæmi eru um slæmt tjón á tannholdi vegna nikótínpúðanotkunar.
Dönsk heilbrigðisyfirvöld telja að allt að 10% ungmenna noti nikótínpúða eða álíka vörur.